Selfoss í úrslit umspilsins

Lið Selfoss er komið í úrslit í umspilinu um sæti í Olísdeild kvenna í handbolta eftir sigur á HK á útivelli í dag, 21-23. Selfoss vann einvígið 2-0.

Selfoss hafði frumkvæðið frá upphafi og leiddi 10-13 í hálfleik. Leikurinn var í öruggum höndum Selfyssinga megnið af síðari hálfleik en liðið náði mest sex marka forskoti, 16-22, þegar sex mínútur voru eftir af leiknum. HK saxaði duglega á forskotið á lokamínútunum en sigur Selfoss var þó ekki í hættu.

Kristrún Steinþórsdóttir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk og þær Dijana Radojevic og Adina Ghidoarca skoruðu báðar 4. Ída Bjarklind Magnúsdóttir skoraði 3 mörk, Carmen Palamariu og Perla Albertsdóttir 2 og Hulda Dís Þrastardóttir og Arna Kristín Einarsdóttir skoruðu 1 mark hvor.

Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 16 skot í marki Selfoss.

Selfoss mætir annað hvort FH eða KA/Þór í úrslitum, en þau eiga eftir að mætast í oddaleik á Akureyri á miðvikudagskvöld.