Selfoss í toppsætið eftir tæpan sigur

Haukur Þrastarson skoraði 7/1 mörk í kvöld. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfoss vann nauman sigur á ÍR í kvöld í Olísdeild karla í handbolta, 31-30. Selfoss endurheimti þar með toppsætið í deildinni en liðið hefur 18 stig eins og Valur sem er í 2. sæti.

Selfoss hafði frumkvæðið á upphafsmínútunum og náði þriggja marka forskoti, 7-4 þegar rúmar tólf mínútur voru liðnar af leiknum. ÍR minnkaði muninn í 10-9 en staðan var 15-13 í leikhléi.

Seinni hálfleikurinn þróaðist svipað og sá fyrri og Selfyssingar voru komnir með fjögurra marka forystu eftir 40 mínútna leik, 21-17. Munurinn varð mestur fimm mörk þegar tæpar tólf mínútur voru eftir, 27-22, en þá slökuðu heimamenn verulega á klónni og ÍR-ingar gengu á lagið.

Selfyssingum voru mislagðar hendur á lokamínútunum og ÍR minnkaði muninn í 31-30 þegar rúm hálf mínúta var eftir. Selfyssingum tókst ekki að nýta síðustu sóknina og ÍR fékk boltann í blálokin en langskot utan af velli var auðvelt fyrir Sölva Ólafsson í markinu. Þar við sat, eins marks sigur.

Haukur kominn aftur út á gólfið
Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 8/2 mörk og 8 stoðsendingar og hann var firnasterkur í vörninni sömuleiðis með 6 brotin fríköst. Atli Ævar Ingólfsson skoraði 6 og þeir Hergeir Grímsson og Guðjón Baldur Ómarsson skoruðu báðir 5 mörk, Guðjón Baldur úr sex skottilraunum sem var besta skotnýting Selfyssinga í kvöld.

Haukur Þrastarson er kominn aftur út á gólfið eftir meiðsli á læri og það munaði svo sannarlega um hann í kvöld, hann skoraði 4 mörk og sendi 7 stoðsendingar. Árni Steinn Steinþórsson skoraði 2 mörk og átti 6 stoðsendingar og hinn 15 ára gamli Ísak Gústafsson skoraði 1 mark, hans fyrsta í deildarkeppni í meistaraflokki.

Selfyssingar fengu ekki mikla markvörslu í fjarveru Pawel Kiepulski, sem lá veikur heima. Sölvi Ólafsson varði 4 skot og var með 15% markvörslu og Helgi Hlynsson varði 2 skot og var með 20% markvörslu.

Fyrri greinLeitað að tilnefningum til Menntaverðlauna Suðurlands
Næsta greinÁrni Steinn í úrvalsliðinu