Selfoss í sextán liða pottinum

Kvennalið Selfoss vann góðan 1-2 útisigur á Keflavík í dag í 2. umferð VISA-bikarsins í knattspyrnu.

Liðin leika hvort í sínum riðlinum í 1. deildinni í sumar og þar hefur hvorugt liðið tapað leik. Það var því ljóst að um hörkuleik yrði að ræða, og sú varð raunin því úrslitin réðust ekki fyrr en í framlengingu.

Keflvíkingar komust yfir snemma leiks með marki beint úr aukaspyrnu en Katrín Ýr Friðgeirsdóttir jafnaði leikinn fyrir Selfoss af vítapunktinum fyrir leikhlé.

Síðari hálfleikur var markalaus og því varð að grípa til framlengingar. Þar voru Selfyssingar ferskari á fótunum og Katrín Ýr skoraði sigurmarkið á undir lok fyrri hálfleiks framlengingarinnar. Aftur kom markið af vítapunktinum en Selfyssingar kláruðu leikinn vel og virtust í betra formi en Keflavíkurkonur.

Selfoss verður því í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslitin í hádeginu á mánudaginn.

Fyrri greinStórt tap hjá KFR
Næsta greinLíkamsárás í Þorlákshöfn