Selfoss í samstarf við Brentford

Knattspyrnudeild Selfoss hefur hafið samstarf við enska 1. deildarliðið Brentford. Samningurinn felur meðal annars í sér að Brentford mun lána Selfyssingum unga og efnilega leikmenn.

Þannig mun Brentford senda leikmenn á aldrinum 17-21 árs til Selfoss þar sem þeim mun gefast kostur á að þroskast sem leikmenn.

Á heimasíðu Brentford segir yfirmaður knattspyrnuakademíu liðsins að um mjög spennandi samning sé að ræða en hann segir Selfyssinga hafa mjög spennandi hugmyndir varðandi þjálfun og þróun leikmanna.

Gunnar Guðmundsson, þjálfari Selfoss, segir í samtali við fotbolti.net að þetta sé samstarfsverkefni með það í huga að báðir aðilar njóti góðs af.

„Ég á von á því að einhverijr tveir leikmenn komi til okkar hluta af sumri og að sama skapi eigum við möguleika á að senda einhverja af okkar leikmönnum út,“ segir Gunnar.

Líklegt er að tveir leikmenn frá Brentford komi til Selfyssinga í maí eða júní og verði hjá félaginu í nokkrar vikur áður en undirbúningstímabilið á Englandi hefst.

„Þetta eru ungir leikmenn frá Brentford og félagið er að horfa til þess að láta þá komast í nýtt umhverfi og fá nýja reynslu. Ef þeir eru nógu góðir til að spila með okkur í 1. deildinni er ekki ólíklegt að þeir spili með okkur leiki en það er ekkert sjálfgefið.“

Fyrri greinGunnar furðar sig á 39 klst lögfræðivinnu
Næsta greinVindmyllurnar gangsettar í dag