Selfoss í fallsæti fyrir lokaumferðina

Aron Fannar Birgisson skoraði fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar misstu af gríðar mikilvægum stigum þegar þeir heimsóttu Grindavík í fallbaráttuslag í Lengjudeild karla í knattspyrnu í dag. Grindavík sigraði 2-1 og þeir gulu björguðu sér því frá falli en Selfoss er áfram í fallsæti.

Leikurinn var rólegur framan af en á 14. mínútu komust Grindvíkingar yfir uppúr hornspyrnu. Þeir héldu þó forystunni aðeins í tíu mínútur því Selfyssingar refsuðu þeim fyrir slæm varnarmistök á 24. mínútu og Aron Fannar Birgisson jafnaði metin.

Staðan var 1-1 í hálfleik og snemma í seinni hálfleik átti Guðmundur Tyrfingsson skot í stöng eftir góða sókn. Annars var lítið að frétta þar til á 73. mínútu að Grindvíkingar spiluðu sig á ákaflega einfaldan hátt í gegnum Selfossvörnina og skoruðu sigurmark leiksins. Selfyssingar þjörmuðu hressilega að heimamönnum á lokakaflanum en inn vildi boltinn ekki og lokatölur urðu 2-1.

Ægismenn þéttir framan af
Ægir heimsótti Aftureldingu í dag en liðin eru á sitthvorum enda stigatöflunnar. Ægismenn voru mjög þéttir í fyrri hálfleik en Afturelding komst yfir á 37. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Ivo Braz kom Aftureldingu í 2-0 í upphafi seinni hálfleiks og fagnaði vel gegn sínum gömlu félögum. Afturelding hélt áfram að sækja en tókst ekki að skora fyrr en á síðustu fimm mínútunum, þá rigndi mörkunum og lokatölur urðu 5-0.

Fyrir lokaumferðina eru Þróttur, Njarðvík og Selfoss öll með 23 stig og Selfoss með lakasta markahlutfallið. Þór Akureyri og Grótta eru einnig í þessum pakka en innbyrðis viðureign þeirra í 21. umferðinni var ekki lokið þegar þessi frétt var skrifuð. Selfoss mætir Vestra í lokaumferðinni næsta laugardag en Vestramenn eru í 4. sæti deildarinnar og komast hvorki ofar eða neðar.

Fyrri greinBatahorfur í rekstri en verðbólgan bítur fast
Næsta greinKFR áfram í 5. deildinni