Selfyssingar heimsóttu Þrótt í Laugardalinn í 1. deild karla í knattspyrnu í dag.
Þróttarar voru sterkari í fyrri hálfleiknum og þeir skoruðu tvívegis með stuttu millibili um miðjan fyrri hálfleikinn. Staðan var 2-0 í hálfleik.
Selfyssingar fóru vel yfir málin í leikhléinu og mættu ferskir út í seinni hálfleikinn. Jón Daði Böðvarsson slapp í gegn strax eftir þrjár mínútur og skoraði af öryggi, 2-1.
Selfoss fékk fín færi í kjölfarið en tókst ekki að jafna. Leikurinn fjaraði smám saman út og Þróttarar fögnuðu mikilvægum sigri.
Þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni er Selfoss í 11. sæti með 16 stig, einu stigi meira en Fjölnir sem er í botnsætinu. Þar fyrir ofan eru Fylkir og Leiknir með 17 stig, Grindavík með 18 og Völsungur með 19.

