Selfoss tapaði 2-1 gegn Njarðvík á útivelli í lokaumferð Inkassodeildar karla í knattspyrnu og lauk sumrinu í botnsæti deildarinnar.
Leikurinn var jafn stærstan hlutann en Njarðvík komst yfir strax á 6. mínútu. Selfoss jafnaði metin fimm mínútum síðar þegar einn leikmanna Njarðvíkur stýrði boltanum í eigið net eftir aukaspyrnu.
Seinni hálfleikur var tíðindalítill en þegar tólf mínútur voru eftir skoruðu Njarðvíkingar sigurmarkið og skildu Selfoss eftir í botnsæti deildarinnar.
Selfoss lauk leik með 15 stig í 12. sæti en Njarðvík lyfti sér upp í 6. sætið með 27 stig. Selfyssingar voru fallnir fyrir leik og munu leika í 2. deildinni að ári.