Selfoss í botnsætið

Selfyssingar eygja ennþá von um að halda sæti sínu í Pepsi-deild karla í knattspyrnu þrátt fyrir 2-1 tap gegn Íslandsmeisturum FH í Kaplakrika í kvöld.

FH-ingar áttu fyrri hálfleikinn frá A-Ö og Selfyssingar voru stálheppnir að vera aðeins einu marki undir í hálfleik. Björn Daníel Sverrisson skoraði með skalla eftir aukaspyrnu strax á 6. mínútu en varnarmenn Selfoss hefðu getað gert mun betur í aðdraganda marksins. FH-ingar áttu m.a. stangarskot auk þess sem Jóhann Ólafur varði glæsilega skot frá Matthíasi Vilhjálmssyni í fyrri hálfleik. Selfyssingar náðu engum takti í sinn leik en Martin Dohlsten átti þó tvær ágætar marktilraunir utan af velli.

Selfyssingar voru mun ákveðnari í síðari hálfleik en náðu þó ekki að skapa sér nein teljandi færi. Það var ekki fyrr en á 67. mínútu að hlutirnir fóru að gerast. Varamaðurinn Jón Daði Böðvarsson kom þá boltanum til vinstri á Viðar Örn Kjartansson sem skoraði glæsilega framhjá Gunnleifi Gunnleifssyni í marki FH. Sæla Selfyssinga varði þó ekki nema í þrjár mínútur því Jóhannes Valgeirsson dómari gaf FH-ingum vítaspyrnu á 70. mínútu. Ekki var alveg ljóst hver braut af sér en líklega var Jóhannes að dæma Jón Guðbrandsson brotlegan. Matthías Vilhjálmsson kom FH aftur yfir úr vítaspyrnunni.

Jón Guðbrandsson og Stefán Ragnar Guðlaugsson fengu báðir gult spjald fyrir að mótmæla vítaspyrnudómnum og það átti eftir að reynast Selfyssingum dýrkeypt því rúmum tíu mínútum síðar fékk Stefán Ragnar sitt annað gula spjald fyrir brot. Selfyssingar færðu lið sitt framar á síðustu mínútunum og opnuðu þá leiðir fyrir sóknarmenn FH en Jóhann Ólafur varði vel dauðafæri Atla Guðnasonar undir lokin. FH átti síðasta færi leiksins en nokkrum sekúndum áður hafði Sigurður Eyberg átti hörkuskot eftir aukaspyrnu en Gunnleifur varði glæsilega í marki FH.

Selfyssingar eru í botnsætinu eftir leikinn með 14 stig eins og Haukar sem gerðu jafntefli við Grindavík í kvöld. Haukar hafa betra markahlutfall en Selfoss og munar þar tveimur mörkum. Fylkir er í 10. sæti með 18 stig og Grindavík hefur 20 stig í 9. sæti. Selfoss á eftir að mæta ÍBV heima nk. fimmtudag, Breiðablik úti nk. sunnudag og Grindavík heima um aðra helgi í lokaumferð Íslandsmótsins.

Byrjunarlið Selfoss: Jóhann Ólafur Sigurðsson, Sigurður Eyberg Guðlaugsson, Andri Freyr Björnsson, Ingólfur Þórarinsson (Arilíus Marteinsson +59), Ingþór Jóhann Guðmundsson (Jón Daði Böðvarsson +59), Viktor Unnar Illugason (Sævar Þór Gíslason +84), Martin Dohlsten, Guðmundur Þórarinsson, Stefán Ragnar Guðlaugsson, Viðar Örn Kjartansson, Jón Guðbrandsson.
Ónotaðir varamenn: Elías Örn Einarsson, Kjartan Sigurðsson, Davíð Birgisson, Einar Ottó Antonsson.

Fyrri greinDýpkunarkostnaður margfaldast
Næsta greinVerðbætur reyndust 108 milljónir króna