Selfoss í 5. sæti á Ragnarsmótinu

ÍBV sigraði ÍR í úrslitaleik Ragnarsmótsins í handbolta sem lauk á Selfossi í dag. Selfoss varð í 5. sæti á mótinu eftir sigur í leik gegn Gróttu.

Leikur Selfoss og Gróttu um 5. sætið endað í vítakeppni eftir að jafnt var eftir venjulegan leiktíma, 24-24. Staðan í hálfleik var 13-8 Gróttu í vil og náðu þeir mest 9 marka forrystu 20-11 áður en Selfoss tók magnaðan lokasprett og jafnaði 24-24.

Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 4 mörk, Jóhannes Eiríksson, Sverrir Pálsson, Ómar Magnússon og Hrannar Gunnarsson skoruðu allir 3 mörk, Gunnar Páll Júlíusson og Magnús Magnússon 2 og þeir Árni Felix Gíslason, Hörður Másson, Andri Hrafn Hallsson og Ómar Vignir Helgason skoruðu allir eitt mark. Hjá Gróttu voru Vilhjálmur Hauksson og Jökull Finnbogason markahæstir með 5 mörk.

Í úrslitaleik ÍBV og ÍR voru lokamínúturnar æsispennandi en ÍBV vann með einu marki, 30-29. Markahæstui hjá ÍBV var Andri Heimir Friðriksson með 11 mörk en Björgvin Hólmgeirsson skoraði 7 mörk fyrir ÍR.

Í leiknum um þriðja sætið hafði HK betur gegn Aftureldingu nokkuð sannfærandi 29-23. Markahæstur hjá HK var Jóhann Reynir Gunnlaugsson með 10 mörk en hjá Aftureldingu var það Hrannar Guðmundsson með 4 mörk.

Í mótslok voru veitt einstaklingsverðlaun sem sérstök dómnefnd sá um að velja. Andri Heimir Friðriksson, ÍBV, var markahæstur með 20 mörk. Selfyssingurinn Sebastian Alexandersson var besti markmaðurinn, Sindri Haraldsson ÍBV besti varnarmaðurinn og Arnar Birkir Hálfdánarson ÍR besti sóknarmaðurinn. Besti leikmaður Ragnarsmótsins var síðan valinn Róbert Aron Hostert, ÍBV.

Fyrri greinSelfoss lá gegn meisturunum
Næsta greinHamar tapaði að Hlíðarenda