Selfoss í 3. sæti á RIG

Meistaraflokkur Selfoss í hópfimleikum varð í 3. sæti á Reykjavik International Games en mótið fór fram um síðustu helgi. Fimleikamótið var haldið í glæsilegu húsnæði Stjörnustúlkna í Garðabæ.

Selfoss varð rétt á eftir liði Stjörnunnar, en Evrópumeistarar Gerplu sigruðu, tæpu stigi á undan liði Stjörnunnar. Gerpla sigraði með 53,3 stig, Stjarnan varð í 2. sæti með 52,4 stig og Selfoss í 3. sæti með 49,03 stig.

Mótið notuðu Selfyssingar m.a. til að keyra nokkrar nýjar æfingar og koma þeim af stað inní tímabilið. Liðið er mikið endurnýjað frá síðasta tímabili en kynslóðaskipti eiga sér stað hjá meistaraflokknum þetta árið.

Mikill kraftur var í stelpunum enda hafa þær æft vel undanfarið. Það setti þó strik í reikninginn að Helga Hjartardóttir var meidd á hné og gat því ekki stokkið eins margar umferðir og hún hefði átt að gera. Unnur Þórisdóttir er að stíga upp úr meiðslum og dansaði bara og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var ekki með þar sem hún var að keppa með meistaraflokki Selfoss í handbolta á sama tíma. Stelpurnar eiga því heilmikið inni og munu tefla fram sterku liði á Íslandsmótinu í vor.

Fyrri greinBláskógaskóli er nafnið á sameinuðum skóla
Næsta greinFimm „nýir“ leikmenn til Selfoss