Selfoss hélt velli þrátt fyrir stóran skell

Kvennalið Selfoss tryggði í kvöld sæti sitt í Pepsi-deildinni í knattspyrnu að ári þrátt fyrir 9-0 tap gegn Íslandsmeisturum Þórs/KA á Akureyri.

Með sigrinum tryggði Þór/KA sér Íslandsmeistaratitilinn en á sama tíma töpuðu KR og Fylkir sínum leikjum sem þýðir að Selfoss heldur sæti sínu, með 16 stig þegar ein umferð er eftir af deildinni.

Um leikinn á Akureyri er fátt að segja en eins og tölurnar benda til voru yfirburðir Þórs/KA miklir. Leikurinn var þó í jafnvægi fyrsta hálftímann þar sem bæði lið fengu hálffæri en Selfoss átti meðal annars skalla í stöng.

Á 29. mínútu brutu norðankonur ísinn og í kjölfarið fylgdu tvö mörk til viðbótar svo staðan var 3-0 í hálfleik. Melanie Adelman var þó nálægt því að minnka muninn á lokamínútu fyrri hálfleiks en skaut í þverslána.

Yfirburðir Þórs/KA voru meiri í seinni hálfleik þar sem liðið bætti við sex mörkum en Selfoss átti þó sín færi. Guðmunda Óladóttir fékk tvö fín færi í vítateignum og Adelman átti gott skot undir lokin sem markvörður Þórs/KA varði vel.

Lokaumferð deildarinnar fer fram á laugardag og þá tekur Selfoss á móti Stjörnunni.