Selfoss/Hamar/Ægir bikarmeistari í 3. flokki karla

Bikarinn á loft! sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss/Hamar/Ægir tryggði sér í dag bikarmeistaratitilinn í 3. flokki karla í knattspyrnu eftir magnaðan sigur á FH í úrslitaleik í Kaplakrika. Lokatölur urðu 7-8, en úrslitin réðust í bráðabana.

Selfyssingar lentu í mótlæti strax í upphafi leiks þegar heimamenn fengu ódýra vítaspyrnu sem þeir skoruðu úr. Strax í næstu sókn hefðu Selfyssingar átt að fá víti þegar brotið var á Sesari Harðarsyni innan teigs en dómarinn kyngdi flautunni og kom ekki upp flauti. Annars var fyrri hálfleikurinn jafn og bæði lið áttu álitlegar sóknir þó að færin hafi ekki verið mörg. Staðan var 1-0 í hálfleik.

Það var boðið upp á dramatík í upphafi seinni hálfleiks því FH-ingar fengu dæmda aðra vítaspyrnu eftir þriggja mínútna leik en sú spyrna fór í stöngina. Þá tóku Selfyssingar við sér og þeir stýrðu leiknum stærstan hluta seinni hálfleiks. Á 66. mínútu slapp Alexander Clive Vokes hægra megin inn í vítateiginn og stýrði knettinum snyrtilega í fjærhornið.

Þá tók við spennandi kafli en hvorugu liðinu tókst að bæta við marki. Selfoss fékk dauðafæri á lokamínútunni þegar Alexander náði góðu skoti í miðjum vítateignum en góður markvörður FH varði glæsilega.

Staðan eftir venjulegan leiktíma var 1-1 og því þurfti að grípa til framlengingar. Heimamenn voru sterkari í framlengingunni en Selfyssingar vörðust vel og Arnór Elí Kjartansson var með allt á hreinu í markinu. Eftir 100 mínútur var flautað af og við tók vítaspyrnukeppni.

Bæði lið skoruðu úr fyrstu fimm spyrnum sínum, næsta örugglega, og því tók við bráðabani. Í sjöundu spyrnu FH dró loksins til tíðinda þegar Arnór Elí varði glæsilega. Daði Kolviður Einarsson tók sjöundu spyrnu Selfoss og hann mætti ískaldur á punktinn og skoraði af öryggi og tryggði Selfoss/Hamri/Ægi sigurinn.

Sunnlendingarnir voru vel studdir af stuðningsmönnum sínum en á fjórða hundrað áhorfenda mætti á leikinn og allt ætlaði um koll að keyra þegar úrslitin voru ljós. Stemningin minnkaði ekki þegar ekið var austur fyrir fjall því bikarmeistararnir fengu góðar móttökur þegar bikarinn kom yfir brúna og flugeldar fóru á loft þegar rennt var í hlað við heimavöllinn á Selfossi.

Þetta er fyrsti bikarmeistaratitill Selfoss í karlaflokki í 55 ár, eða síðan árið 1966, þegar 2. flokkur varð bikarmeistari. 

Alexander Clive og Óliver Þorkelsson fagna jöfnunarmarki þess fyrrnefnda. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Sigurlið Selfoss/Hamars/Ægis. Þjálfarar liðsins eru Guðmundur Sigmarsson og Sigurður Reynir Ragnhildarson og Stefán Þór Ágústson er aðstoðarþjálfari. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinTalið aftur í Suðurkjördæmi
Næsta greinFljúgandi furðuhlutur yfir Suðurlandi