Selfoss hafði engan áhuga á að tapa

Tryggvi Þórisson skoraði fimm mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann magnaðan sigur á KA í næst síðustu umferð Olísdeildar karla í handbolta á Akureyri í kvöld, 25-30.

Selfoss hafði frumkvæðið á upphafsmínútunum en eftir að KA hafði jafnað um miðjan fyrri hálfleikinn settu Selfyssingar rútuna í gírinn og gerðu 8-3 áhlaup þannig að staðan var 11-16 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var í góðum höndum Selfoss lengst af. Þeir náðu fljótlega sex marka forskoti, en smá spenna hljóp í leikinnn þegar tæpar tíu mínútur voru eftir en þá hafði KA breytt stöðunni í 21-23. Selfyssingar höfðu hins vegar engan áhuga á því að tapa þessum leik og bættu hraustlega í á lokakaflanum. Fimm marka sigur var staðreynd þegar upp var staðið.

Selfoss er og verður í 5. sæti deildarinnar, sama hvernig fer í lokaumferðinni, og mun annað hvort mæta FH eða ÍBV í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins, þar sem andstæðingurinn mun eiga heimaleikjaréttinn.

Hergeir Grímsson var lykilmaður í vörn og sókn í kvöld, skoraði 5 mörk og var með 5 brotin fríköst. Ragnar Jóhannsson skoraði sömuleiðis 5 mörk, Einar Sverrisson og Richard Sæþór Sigurðsson 4, Guðmundur Hólmar Helgason og Karolis Stropus 3, Atli Ævar Ingólfsson 2/2, Guðjón Baldur Ómarsson og Tryggvi Þórisson 2 en Tryggvi var með 5 brotin fríköst í vörninni að auki.

Vilius Rasimas varði 10/1 skot í marki Selfoss og var með 29% markvörslu.

Fyrri greinHver er þessi Arnar Freyr Ólafsson, oddviti Framsóknar í Árborg?
Næsta greinMeistararnir sögðu bless í lokin