Selfoss hafði betur í hörkuleik

Arna Kristín Einarsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss mætir ÍBV í hreinum úrslitaleik á Ragnarsmóti kvenna í handbolta næsta laugardag, eftir góðan sigur á Víkingum í hörkuleik í kvöld.

Víkingur leiddi nánast allan fyrri hálfleikinn í kvöld og náði mest fjögurra marka forystu. Selfoss jafnaði 14-14 rétt fyrir leikhlé og þannig stóðu leikar í hálfleik. Selfoss byrjaði betur í seinni hálfleik en Víkingur var aldrei langt undan, fyrr en Selfoss náði fjögurra marka forskoti á lokakaflanum. Selfoss hafði tveggja marka sigur að lokum, 30-28.

Arna Kristín Einarsdóttir var markahæst Selfyssinga með 7 mörk, Eva Lind Tyrfingsdóttir og Sara Dröfn Rikharðsdóttir skoruðu 4, Hulda Dís Þrastardóttir, Ída Bjarklind Magnúsdóttir og Mia Kristin Syverud 3, Sylvía Bjarnadóttir 2 og þær Adela Eyrún Jóhannsdóttir, Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir, Inga Sól Björnsdóttir og Hulda Hrönn Bragadóttir skoruðu allar 1 mark. Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 9 skot í marki Selfoss og Sara Xiao Reykdal 3.

Hjá Víkingum var Auður Brynja Sölvadóttir markahæst með 7 mörk og Þyri Erla Sigurðardóttir varði 11 skot.

Í hinum leik kvöldsins mættust ÍBV og Afturelding. ÍBV leiddi 10-8 í hálfleik en í seinni hálfleiknum hlupu Eyjakonur með leikinn í burt og sigruðu 26-15. Ásta Björt Júlíusdóttir skoraði 12 mörk fyrir ÍBV og Amalie Frøland varði 11 skot. Anna Katrín Bjarkadóttir og Katrín Erla Kjartansdóttir skoruðu 4 mörk fyrir Aftureldingu og Ingibjörg Gróa Guðmundsdóttir varði 11 skot.

Fyrri greinVonir Árborgara dvína
Næsta greinMeiri gæði og mun minni álögur