Selfoss gerði góða ferð norður

Vilius Rasimas var frábær í markinu í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Botnlið Selfoss vann góðan sigur á KA á Akureyri í Olísdeild karla í handbolta í dag. Lokatölur urðu 28-30.

KA skoraði fyrstu tvö mörk leiksins en Selfoss jafnaði 3-3 og eftir það var jafnt á öllum tölum þangað til Selfoss komst í 7-10 þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum. Staðan var 12-15 í hálfleik.

Norðanmenn skoruðu þrjú fyrstu mörkin í seinni hálfleik og jöfnuðu 15-15 en þá kom góður kafli hjá Selfyssingum sem breyttu stöðunni í 16-20 og í framhaldinu héldu þeir KA tveimur til þremur mörkum frá sér allt til leiksloka.

Einar Sverrisson var frábær í sókninni hjá Selfyssingum, skoraði 11/7 mörk og Vilius Rasimas sýndi styrk sinn í markinu og varði 17 skot, þar af 4 vítaskot. Aðrir markaskorarar Selfoss voru Sveinn Andri Sveinsson með 5 mörk, Tryggvi Sigurberg Traustason og Hannes Höskuldsson skoruðu 4, Gunnar Kári Bragason 3 og þeir Álvaro Mallols, Sæþór Atlason og Hans Jörgen Ólafsson skoruðu allir 1 mark. Sverrir Pálsson var sterkur í vörninni með 6 löglegar stöðvanir.

Þrátt fyrir sigurinn eru Selfyssingar áfram á botninum með 6 stig en KA er í 7. sæti með 10 stig.

Fyrri greinDansað á desemberþakinu
Næsta greinHamar/Þór skellti úrvalsdeildarliði í bikarnum