Selfoss gerði jafntefli við toppliðið

Magnús Ingi í leik með Selfyssingum sumarið 2014. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar heimsóttu topplið Leiknis í 1. deild karla í knattspyrnu í dag. Lokatölur urðu 1-1 í jöfnum leik.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill en bæði lið fengu þó færi og Þorsteinn Daníel Þorsteinsson átti bestu marktilraun Selfoss en markvörður Leiknis sá við honum.

Staðan var 0-0 í leikhléi en þegar um fimmtán mínútur voru liðnar af síðari hálfleik fóru sóknir Leiknismanna að þyngjast og þeir komust yfir á 61. mínútu.

Eftir markið voru Leiknismenn líklegri til þess að bæta við mörkum en Selfyssingar játuðu sig ekki sigraða og á 78. mínútu jafnaði Magnús Ingi Einarsson metin með skallamarki. Selfyssingar urðu þar með fyrsta liðið til að skora gegn Leikni í deildinni í sumar.

Í kjölfar jöfnunarmarksins fjaraði leikurinn hratt út og lokamínúturnar voru tíðindalitlar.

Selfyssingar eru nú í 6. sæti deildarinnar með átta stig.

Fyrri greinFullt í nám í grunndeild ferða- og matvælagreina
Næsta greinRangæingar töpuðu í Kaplakrika