Selfoss gaf eftir í seinni hálfleik

Selfyssingar tóku á móti taplausu toppliði Aftureldingar í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Eftir jafnan fyrri hálfleik tóku gestirnir Selfoss í kennslustund í upphafi seinni hálfleiks og sigruðu að lokum 20-24.

Gestirnir byrjuðu betur í leiknum og komust í 3-6 en Selfoss jafnaði 7-7 og staðan var 10-12 í hálfleik. Sebastian fór á kostum í markinu og Hörður Másson skoraði fjögur glæsileg mörk en annars voru Selfyssingar að skjóta illa inn á milli og markvörður gestanna, Davíð Svansson, átti stórleik og var besti maður vallarins heilt yfir.

Afturelding skoraði tvö fyrstu mörkin í seinni hálfleik og var þá með fjögurra marka forystu, 10-14. Selfyssingar voru ekki með á nótunum fyrsta korterið í seinni hálfleik og gestirnir röðuðu inn mörkunum á meðan Selfyssingum gekk illa í sókninni. Munurinn varð mestur níu mörk, 12-21. Munurinn var orðinn of mikill, og tíminn of naumur fyrir Selfyssinga sem bitu þó frá sér undir lokin með Atla Kristinsson fremstan í flokki.

Atli spilaði í kvöld sinn fyrsta leik fyrir Selfoss í rúmt ár en hann er að koma til baka eftir krossbandaslit. Atli spilaði síðasta korterið í leikum og afrekaði það að verða markahæstur Selfyssinga með 5 mörk. Hörður Másson skoraði 4, Einar Sverrisson 3/1, Örn Þrastarson og Sverrir Pálsson 2, Jóhann Erlingsson, Andri Már Sveinsson og Ómar Ingi Magnússon 1 og Jóhannes Snær Erlingsson 1/1.

Sebastian Alexandersson varði 14/1 skot í leiknum, þar af 12 í fyrri hálfleik, og var með 41% markvörslu. Sverrir Andrésson varði 4 skot og var með 50% markvörslu.

Lið Aftureldingar er ósigrað í efsta sæti deildarinnar með 22 stig en Selfoss er í 3. sæti með 15 stig. Þetta var síðasti deildarleikur Selfoss fyrir jólafrí en liðið leikur bikarleik gegn Gróttu á útivelli næstkomandi miðvikudag.

Fyrri greinSkotmaður slasaðist á Hafnarnesi
Næsta greinÞórsarar langt frá sínu besta