Selfoss gaf eftir í seinni hálfleik

Þó að Sebastian Alexandersson hafi varið fimm vítaskot í leik Selfoss og Víkings í 1. deild karla í handbolta í kvöld, dugði það Selfyssingum ekki og Víkingar sigruðu 20-24.

Jafnt var á flestum tölum framan af leiknum en þegar leið á fyrri hálfleikinn komust Selfyssingar í 7-5 og héldu þeir tveggja marka forskoti fram að leikhléi, 11-9. Sverrir Pálsson og Jóhann Erlingsson höfðu verið öflugir í sókninni og Sebastian átti fínar vörslur á köflum og varði auk þess hvert vítaskotið á fætur öðru.

Það var fátt sem gladdi augað hjá Selfossliðinu í síðari hálfleik utan hvað Matthías Örn Halldórsson mætti aftur inn á völlinn eftir margra mánaða fjarveru vegna meiðsla. Hann skoraði tvö fyrstu mörk Selfyssinga í síðari hálfleik og breytti stöðunni í 13-10. Í kjölfarið tóku Víkingar 1-6 áhlaup og náðu tveggja marka forystu, 14-16.

Ekkert gekk upp hjá Selfyssingum í sókninni á þessum tíma auk þess sem Magnús Erlingsson lokaði Víkingsrammanum á köflum. Sebastian hélt reyndar áfram að verja vítaskotin en annars áttu Víkingar ekki í miklum vandræðum með að rata í gegnum Selfossvörnina.

Víkingar gengu á lagið og þegar ellefu mínútur voru eftir af leiknum var munurinn orðinn fimm mörk, 15-20. Brekkan var orðin allt of brött fyrir Selfyssinga sem náðu mest að minnka muninn niður í þrjú mörk, 18-21. Víkingar unnu að lokum öruggan sigur, 20-24.

Sverrir skoraði 4 mörk fyrir Selfyssinga, Andri Már Sveinsson 4/3, Matthías Örn, Jóhann og Egidijus Mikalonis skoruðu allir 3 mörk, Hörður Másson 2 og Daníel Róbertsson 1.

Sebastian varði sextán skot í leiknum, þar af fimm af þeim sex vítaskotum sem hann fékk á sig, og var með 40% markvörslu.

Fyrri greinKarlmannsleysi hrjáir Ölfusinga
Næsta greinMílan hársbreidd frá jafntefli