Selfoss – Fylkir 1-3

Selfyssingar lutu í gervigras í kvöld þegar liðið mætti Fylki í fyrsta leik sínum í Pepsi-deildinni. Lokatölur voru 1-3 og skoraði Sævar Þór Gíslason mark Selfoss.

Fyrri hálfleikur: Það er frábær stemmning í stúkunni á Selfossvelli þar sem Skjálftastrákarnir fara fremstir í flokki. Samkvæmt talningu sunnlenska.is eru 1352 gestir á vellinum. Fyrri hálfleikur var frekar bragðdaufur og Selfyssingar hafa ekki fengið færi.

Hurðin fræga hefur skollið í þrígang nærri hælum við mark Selfoss en Jóhann Ólafur Sigurðsson hefur verið eins og kisulóra í markinu.

Ingimundur Níels Óskarsson fékk fyrsta færið á 4. mínútu en Jóhann blakaði knettinum laglega yfir.

Á 15. mínútu fékk Ásgeir Börkur ágætt færi en Jóhann varði aftur vel, Selfyssingar brunuðu í sókn og Guðmundur Þórarinsson skaut í höndina á Einari Péturssyni en þó að það væri farið að kólna með rigningu sá Magnús Þórisson dómari ekki ástæðu til að blása sér til hita í flautuna.

Korteri síðar reyndi Valur Fannar Gíslason skalla að marki en Jóhann varði vel. Tíu mínútum síðar fengu Fylkismenn enn eitt færið en aftur sá Jóhann Ólafur við þeim.

Seinni hálfleikur: Ekki voru liðnar nema tvær mínútur af síðari hálfleik þegar Fylkismenn voru komnir yfir. Ólafur Stígsson skoraði eftir skyndisókn. Skömmu síðar komst Sævar Þór Gíslason í ágætt færi en skaut framhjá.

Á 56. mínútu jók Pape Mamadou Faye muninn fyrir Fylki eftir klafs í teignum en markið lyktaði af daunillri rangstöðu.

Selfyssingar sóttu í sig veðrið eftir þetta og Sævar Þór Gíslason slapp innfyrir á 69. mínútu. Sævar renndi boltanum undir Fjalar í marki Fylkis og þaðan skrúfaðist hann inn. Fyrsta mark Selfyssinga í efstu deild.

Heimamenn voru meira með boltann eftir þetta án þess þó að fá færi en Fylkismenn freistuðu þess að sækja hratt. Ekki báru sóknir þeirra árangur fyrr en á 90. mínútu að Jóhann Þórhallsson lék laglega á tvo varnarmenn Selfoss og smellti boltanum í fjærhornið framhjá Jóhanni Ólafi.

Lið Selfoss: Jóhann Ólafur Sigurðsson – Kjartan Sigurðsson, Agnar Bragi Magnússon, Stefán Ragnar Guðlaugsson, Andri Freyr Björnsson (Ingólfur Þórarinsson +86) – Jón Daði Böðvarsson, Jón Guðbrandsson (Arilíus Marteinsson +65), Henning Eyþór Jónasson, Guðmundur Þórarinsson – Davíð Birgisson (Ingi Rafn Ingibergsson +65), Sævar Þór Gíslason.

Lið Fylkis: Fjalar Þorgeirsson, Einar Pétursson, Kristján Valdimarsson, Andrés Már Jóhannesson, Tómas Joð Þorsteinsson, Ingimundur Níels Óskarsson, Ásgeir Börkur Ásgeirsson, Valur Fannar Gíslason, Ólafur Ingi Stígsson (Ásgeir Örn Ásgeirsson +77), Albert Brynjar Ingason (Þórir Hannesson +86), Pape Mamadou Faye (Jóhann Þórhallsson +65).

Fyrri greinBreytingar á búvörulögum vegna eldgossins
Næsta grein„Eldskírn fyrir okkur“