Selfoss – Fram 1-2

Selfyssingar töpuðu fyrir Fram í kvöld í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Selfoss komst snemma yfir en Framarar voru sterkari og bættu við tveimur mörkum.

Fyrir leik: Guðmundur Benediktsson gerir eina breytingu á byrjunarliði Selfoss frá síðasta deildarleik fyrir leikinn gegn Fram í kvöld.Guðmundur Þórarinsson er meiddur og kemur fyrrum Framarinn Kjartan Sigurðsson inn í miðvarðarstöðuna. Stefán Ragnar Guðlaugsson færist inn á miðjuna.

Það er bongóblíða á Selfossvelli en blæs aðeins af suðvestan. Lítur út fyrir góða mætingu á Selfossvöll í kvöld.

Fyrri hálfleikur: Leikurinn var mjög fjörugur framan af og Selfyssingar gerðu sig ítrekað líklega upp við mark Fram. Jón Guðbrandsson kom Selfoss yfir á 5. mínútu eftir góða sókn. Andri Freyr Björnsson vann boltann við endamörk og þrumaði honum fyrir. Þar var Jón staddur og skoraði af stuttu færi. Framarar svöruðu fyrir sig þremur mínútum síðar með vandræðalega auðveldu marki, stungusendingu innfyrir þar sem Joe Tillen var á auðum sjó og renndi boltanum framhjá Jóhanni í markinu. Eftir þetta áttu bæði lið álitlegar sóknir en fá góð færi. Sævar Þór slapp einu sinni innfyrir en setti boltann í hliðarnetið og Jón Daði Böðvarsson átti bylmingsskot sem Hannes varði yfir í marki Fram.

Seinni hálfleikur: Selfyssingar voru daprir í síðari hálfleik og komust ekki yfir miðju á löngum köflum. Agnar Bragi Magnússon, miðvörður Selfoss, fékk besta færi Fram í leiknum þegar hann hreinsaði boltann í þverslána á Selfossmarkinu í upphafi seinni hálfleiks. Á 61. mínútu kom svo sigurmark leiksins þegar Hjálmar Þórarinsson skoraði af stuttu færi eftir sendingu neðan úr Þorlákshöfn frá Jóni Guðna Fjólusyni. Selfyssingar héldu fyrir nefið því markið lyktaði af rangstöðu og sá ilmur er ekki góður. Framarar voru meira með boltann án þess að fá hættuleg færi en síðustu tíu mínúturnar bitu Selfyssingar aðeins frá sér. Einar Ottó átti skalla að marki eftir hornspyrnu á 87. mínútu en Jón Guðni bjargaði á línu. Þetta var síðasta færi leiksins en þegar upp er staðið er sigur Fram meira en sanngjarn.

Þekktir Sunnlendingar sem gleðjast yfir sigri Fram eru m.a. DJ Ghozt og Hreimur Örn Heimisson sem báðir fóru mikinn í stúkunni.

Byrjunarlið Selfoss: Jóhann Ólafur Sigurðsson (M), Sigurður Eyberg Guðlaugsson, Arilíus Marteinsson (Ingi Rafn Ingibergsson +79), Agnar Bragi Magnússon, Kjartan Sigurðsson, Andri Freyr Björnsson. Ingólfur Þórarinsson (Einar Ottó Antonsson +66), Stefán Ragnar Guðlaugsson, Jón Daði Böðvarsson, Jón Guðbrandsson, Sævar Þór Gíslason (F) (Davíð Birgisson +79).

Byrjunarlið Fram: Hannes Þór Halldórsson (M), Daði Guðmundsson, Kristján Hauksson (F), Jón Guðni Fjóluson, Sam Tillen, Jón Gunnar Eysteinsson, Almarr Ormarsson, Hjálmar Þórarinsson, Ívar Björnsson, Jón Orri Ólafsson, Joe Tillen.