Selfoss – FH 0-2

Íslandsmeistarar FH unnu tiltölulega auðsóttan sigur á Selfyssingum í Pepsi-deild karla í kvöld. Lokatölur voru 0-2.

Gestirnir tóku leikinn í sínar hendur strax í upphafi og áttu nokkrar hættulegar sóknir. Fyrsta korterið voru Selfyssingar þéttir aftast og fljótir fram á við ef þeir fengu boltann en sóknirnar runnu strax út í sandinn.

Á 20. mínútu hertu FH-ingar tökin í sókninni og fengu tvö prýðisfæri sem Jóhann Ólafur Sigurðsson varði vel í marki Selfoss. FH-ingar fengu hornspyrnur á færibandi og á 31. mínútu skoraði Ólafur Páll Snorrason úr einni slíkri. Hann sneri boltanum laglega frá vinstri yfir Jóhann Ólaf og niður í fjærhornið. Ekkert mál fyrir Ólaf Pál.

Nokkrum mínútum síðar áttu FH-ingar sláarskot en staðan var 0-1 í hálfleik. Það sem helst gladdi eyrun í fyrri hálfleik voru Skjálftamenn sem hermdu ótrúlega vel eftir Vuvusuela lúðrum á milli þess sem þeir sungu „Það kom tóm rúta úr Hafnarfirði“. Stemmningin var vissulega Selfossmegin en það skilaði sér ekki inn á völlinn.

Einar Ottó Antonsson kom inná í upphafi síðari hálfleiks fyrir Guðmund Þórarinsson sem glímt hefur við nárameiðsli. Með innkomu Einars fengu FH-ingar minni tíma á boltann á miðjunni. Sóknarleikurinn lagaðist þó lítið en á 59. mínútu kom Matthías Vilhjálmsson FH í 0-2 og gerði út um leikinn.

Eftir annað mark FH fjaraði leikurinn út en Selfyssingar reyndu hvað þeir gátu að bæta í sóknina. Sævar Þór Gíslason var settur inná en það var miðvörðurinn Agnar Bragi Magnússon sem fékk bestu færin uppúr föstum leikatriðum. Inn fór boltinn þó ekki og niðurstaðan var meira en sanngjarn sigur gestanna.