Selfoss fer til Póllands í 3. umferð

Þórir Ólafsson og Haukur Þrastarson fara yfir málin. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfoss mætir pólska liðinu Azoty-Puławy í 3. umferð EHF-bikarsins í handbolta en dregið var í morgun. Leikirnir fara fram í nóvember.

Azoty-Puławy er sterkt lið sem hefur verið í topp fimm í pólsku úrvalsdeildinni undanfarin ár. Liðið hefur tekið þátt í áskorendabikar Evrópu og EHF bikarnum á síðustu ár en liðið komst í riðlakeppni EHF bikarsins í fyrra.

Þórir Ólafsson, aðstoðarþjálfari Selfoss, þekkir pólskan handbolta vel eftir að hafa leikið þrjú keppnistímabil með toppliði Kielce.

„Þetta er klárlega spennandi verkefni. Þetta er gott lið, nokkrir landsliðsmenn frá Svartfjallalandi, Úkraínu og Bosníu. Þetta eru líkamlega stórir og sterkir strákar. Liðið er í 2. sæti í pólsku deildinni núna, þetta er sterk deild og sjálfsagt væru liðin í 2.-6. sæti topplið á Íslandi,“ segir Þórir.

Meðal liðsmanna Azoty-Puławy eru rússneski landsliðsmarkvörðurinn Vadim Bogdanov og bosníski landsliðsmaðurinn Nikola Prce.

„Við eigum erfiða leiki í Olísdeildinni í þessari viku, gegn Val á miðvikudag og FH á laugardag. Núna erum við að einbeita okkur að þessum verkefnum en síðan förum við að afla okkur upplýsinga um Pólverjana. Pawel, nýi markvörðurinn okkar, ætti líka að þekkja þá vel eftir að hafa spilað í pólsku deildinni á síðustu árum,“ segir Þórir.

Selfoss hefur slegið lið Dragunas frá Litháen og Ribnica frá Slóveníu úr keppni í EHF-bikarnum en liðið sem sigrar í 3. umferðinni kemst í riðlakeppni mótsins eftir áramót.

Leikirnir gegn Azoty-Puławy verða spilaðir 17. og 24. nóvember, fyrri leikurinn í Puławy, sem er 50 þúsund manna borg sunnan við Varsjá, og seinni leikurinn á Selfossi.

Fyrri greinMyrkrinu fagnað í Þorlákshöfn
Næsta greinUnnur Brá fulltrúi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum