Selfoss féll úr 1. deildinni

Markaskorarinn Jón Daði Böðvarsson með boltann í leiknum í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru fallnir niður í 2. deild karla í knattspyrnu eftir 1-4 tap gegn Keflavík í lokaumferð 1. deildarinnar á Selfossvelli í dag.

Það var mikil spenna í lokaumferðinni enda skiptu úrslit allra leikja dagsins máli, bæði í topp og botnbaráttunni. Selfyssingar voru í fallsæti þegar flautað var til leiks í dag en þeir komust í góð mál á 26. mínútu þegar Jón Daði Böðvarsson skoraði af vítapunktinum. Átta mínútum síðar jöfnuðu Keflvíkingar og staðan var 1-1 í hálfleik.

Keflavík komst í 1-2 þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum. Á sama tíma komst Leiknir yfir gegn Fjölni og verkefni Selfyssinga því augljóst, þeir urðu að skora tvisvar og sigra Keflavík. Leikurinn í dag var jafn og bæði lið fengu fín færi til að bæta við mörkum. Selfyssingar sóttu stíft þegar leið á en færin fóru forgörðum og Keflavík refsaði með tveimur mörkum eftir skyndisóknir í uppbótartímanum.

Selfoss lauk því leik í 11. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Grindavík sem slapp við fall. Fjölnismenn fylgja Selfyssingum niður í 2. deildina.

Fyrri greinFram tók völdin í seinni hálfleik
Næsta greinSelfoss 2 í toppmálum í Grillinu