Selfoss fékk skell í opnunarleiknum

Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 6 mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti Fram í fyrstu umferð Olísdeildar karla í handbolta í kvöld. Selfyssingar náðu sér ekki á flug og Fram vann öruggan sigur, 33-26.

Leikurinn var í járnum fyrstu mínúturnar. Fram skoraði fyrstu tvö mörkin en Selfyssingar svöruðu með þremur í röð. Staðan var 7-7 þegar rúmt korter var liðið en þá fór að síga á ógæfuhliðina hjá Selfyssingum. Fram náði fjögurra marka forskoti og munurinn varð mestur sex mörk fyrir leikhlé. Staðan í hálfleik var 17-11.

Selfoss byrjaði af krafti í seinni hálfleik en nær komust þeir ekki. Framarar spýttu í lófana og höfuð öruggt forskot allt til leiksloka.

Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 6 mörk fyrir Selfoss, Ísak Gústafsson 6/2, Atli Ævar Ingólfsson 5, Tryggvi Sigurberg Traustason 3/1, Hannes Höskuldsson 2 og þeir Sölvi Svavarsson, Richard Sæþór Sigurðsson, Karolis Stropus og Elvar Elí Hallgrímsson skoruðu allir 1 mark. Vilius Rasimas varði 10 skot í marki Selfoss og Jón Þórarinn Þorsteinsson 6.

Fyrri greinBæjarstjórn frestar framkvæmdaleyfi vegna endurheimtar votlendis
Næsta greinBjörgunarsveitir fundu áttavillta göngukonu