Selfoss fékk skell á Ragnarsmótinu

Ljósmynd: Selfoss / Sigurður Ástgeirsson

Selfoss tapaði stórt gegn HK í 2. umferð Ragnarsmóts kvenna í handbolta í Iðu á Selfossi í kvöld.

HK konur voru sterkari aðilinn allan tímann og leiddu 16-8 í hálfleik. Munurinn jókst enn frekar í seinni hálfleiknum og lokatölur urðu 34-19.

Tinna Sigurrós Traustadóttir var markahæst Selfyssinga með 9 mörk, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir skoraði 4 og Kristín Una Hólmarsdóttir 3. Hjá HK skoraði Tinna Sól Björgvinsdóttir 9 mörk.

Í hinum leik kvöldsins sigraði Afturelding Gróttu 26-21. Staðan í hálfleik var 17-9. Katrín Davíðsdóttir skoraði 5 mörk fyrir Aftureldingu og Katrín Ásmundsdóttir var markahæst hjá Gróttu með 5 mörk sömuleiðis.

Ragnarsmótinu lýkur á föstudagskvöld en þá mætast Selfoss og Grótta kl. 18:30 og Afturelding og HK kl. 20:15.

Fyrri greinSjö stöðvaðir undir áhrifum
Næsta greinÁsthildur Lóa leiðir lista Flokks fólksins