Selfoss fékk silfrið

Kvennalið Selfoss tapaði 6-2 fyrir FH í úrslitaleik 1. deildar kvenna í knattspyrnu í Kaplakrika í dag.

Bæði lið höfðu tryggt sér sæti í Pepsi-deildinni fyrir leikinn en FH-ingar unnu A-riðilinn með miklum yfirburðum. Þær hafa raðað inn mörkunum í sumar og héldu því áfram í dag.

Það tók FH ekki nema 50 sekúndur að komast yfir en á 18. mínútu jafnaði Katrín Ýr Friðgeirsdóttir fyrir Selfoss eftir góðan undirbúning Önnu Þorsteinsdóttur.

FH komst aftur yfir á 25. mínútu þegar FH-ingar stungu boltanum innfyrir Selfossvörnina en Selfoss fékk tvö góð færi í kjölfarið og FH-ingar björguðu m.a. á línu frá Önnu Þorsteinsdóttur.

Þriðja mark FH kom á 38. mínútu eftir klafs í vítateig Selfoss og staðan var 3-1 í hálfleik.

Fyrstu tíu mínútur síðari hálfleiks voru tíðindalitlar en síðan skoruðu FH-ingar tvö mörk á fjögurra mínútna kafla og eftir 60 mínútna leik var staðan orðin 5-1. Selfoss minnkaði síðan muninn á 68. mínútu þegar Fransiska Jóney Pálsdóttir tók aukaspyrnu hægra megin fyrir utan vítateiginn, Guðmunda Óladóttir kom boltanum áfram á Önnu Maríu Friðgeirsdóttur sem setti hann í markið.

Eftir þetta fjaraði leikurinn út og síðustu tuttugu mínúturnar fóru aðallega í skiptingar hjá liðunum. FH bætti sjötta markinu við á 90. mínútu og vann sannfærandi sigur þegar upp var staðið.