Selfoss fær tvo leikmenn að láni

Norski markvörðurinn Idun-Kristine Jørgensen hefur verið lánuð á Selfoss. Ljósmynd/Stabæk

Knattspyrnudeild Selfoss hefur gengið frá lánssamningum fyrir tvo leikmenn, þannig að leikmannahópur kvennaliðsins er að taka á sig endanlega mynd.

Þetta eru norski markvörðurinn Idun-Kristine Jørgensen sem kemur að láni frá Stabæk og miðjumaðurinn Sigríður Theódóra Guðmundsdóttir sem kemur frá Val.

Jørgensen er 21 árs og hefur leikið fyrir U19 landslið Noregs. „Hún er mjög efnileg og við sjáum fyrir okkur að hún geti hjálpað okkur að stíga næstu skref í okkar ferli. Ég er mjög spenntur fyrir að fá hana til liðs við okkur,“ segir Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss.

Sigríður Theódóra er 18 ára og kom við sögu í 7 deildarleikjum hjá Íslandsmeisturum Vals á síðasta ári en hún er auk þess leikmaður U19 ára liðs Íslands.

„Við erum mjög spennt að fá Siggu til liðs við okkur. Hún er mjög efnileg og fjölhæf og mun gefa okkur nýja vídd inni á miðjunni,“ segir Björn.

Fyrri greinMeira um veitur
Næsta greinÍslenskar einsöngsperlur og galsafullur lofsöngur