Selfoss fær nýjan miðvörð

Chris Jastrzembski, kominn í Selfossbúninginn. Ljósmynd/Arnar Helgi Magnússon

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við Chris Jastrzembski, sem er 25 ára miðvörður. Chris er af pólskum ættum en fæddist í Þýskalandi og hefur búið þar nánast alla ævi. Hann kemur til Selfoss frá færeyska félaginu B68 Toftir.

„Ég talaði við Dean Martin og fékk að æfa með liðinu. Mér leið strax vel hérna og allir voru tilbúnir að aðstoða mig og hjálpa mér að aðlagast. Þetta er ný áskorun fyrir mig, sem ég er spenntur að takast á við; nýtt tungumál, nýtt land og nýtt fólk. Svo skemmir það ekki fyrir að veðrið hér er betra en í Færeyjum,” segir Jastrzembski léttur í fréttatilkynningu frá Selfyssingum.

„Markmiðið mitt er að spila í Bestu deildinni á næstu tveimur árum og vonandi verður það með Selfoss. Ég vil vera fyrirmynd fyrir aðra leikmenn og hjálpa liðinu að spila góðan fótbolta.”

Áður en Jastrzembski fór til Færeyja spilaði hann í neðri deildum Þýskalands með hinum ýmsu liðum. Hann á að baki landsleiki fyrir yngri landslið Póllands.

Fyrri greinFjarheilbrigðisþjónusta á Suðurlandi eflist
Næsta greinFramsókn í Árborg hættir við prófkjörið