Selfoss fær mexíkóska landsliðskonu að láni

Jimena López. Ljósmynd/OL Reign

Knattspyrnudeild Selfoss hefur fengið mexíkósku landsliðskonuna Jimena López að láni frá OL Reign í bandarísku kvennadeildinni. Lánssamningurinn gildir út júnímánuð. 

López, sem er 24 ára gömul, var valin 28. í nýliðavali kvennadeildarinnar í Bandaríkjunum árið 2021 af OL Reign en ákvað þrátt fyrir það að semja við spænska úrvalsdeildarliðið Eibar. Þar spilaði hún sextán leiki en gekk svo til liðs við OL Reign og hefur spilað sex leiki fyrir félagið undanfarin tvö keppnistímabil.

Hún hefur spilað 29 landsleiki fyrir A-landslið Mexíkó og skorað í þeim tvö mörk, auk þess sem hún spilaði 15 leiki fyrir yngri landslið Mexíkó á sínum tíma. Þetta er fjölhæfur leikmaður sem leikur helst sem vinstri bakvörður en getur einnig spilað sem miðvörður eða kantmaður.

„Þegar tækifærið kom upp að fá López lánaða þá var ég fljótur að bregðast við. Ég sá hana þegar ég heimsótti félagið fyrr í vetur og var mjög spenntur fyrir henni. Hún mun vonandi gefa okkur auka stöðugleika í varnarlínu okkar á meðan aðrir leikmenn eru að aðlagast nýjum hlutverkum,” segir Björn Sigurbjörnsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss. 

Fyrri greinÞór valtaði yfir Grindavík og mætir Haukum
Næsta greinGuðni og Eliza gerðu víðreist um Mýrdalshrepp