Selfoss fær bandarískan varnarmann

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við bandaríska varnarmanninn Cassie Boren fyrir komandi keppnistímabil í Pepsideild kvenna.

Boren er 22 ára gömul og er að ljúka háskólanámi þar sem hún spilaði með sterku liði Texas Tech í bandaríska háskólaboltanum.

„Þetta er spennandi leikmaður sem stóð sig mjög vel í háskólaboltanum og ég hlakka til að vinna með henni. Það verður áskorun fyrir hana að stíga inn í vörnina hjá okkur en varnarleikurinn var okkar aðalsmerki í fyrra og gekk mjög vel. Við væntum þess að hún muni smella vel inn í hópinn hjá okkur,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss.

Boren fær væntanlega það verkefni að fylla skarðið sem Allyson Haran, leikmaður ársins hjá Selfossi í fyrra, skilur eftir sig í Selfossvörninni. Haran samdi nýlega við bandaríska atvinnumannaliðið NC Courage og verður þriðji leikmaðurinn „frá Selfossi“ sem spilar í atvinnumannadeildinni í Bandaríkjunum en hinar eru Dagný Brynjarsdóttir og markvörðurinn Michele Dalton.

Fyrri greinBrúna tunnan kostar Árborg 16 milljónir króna
Næsta grein„Ótrúlega spennandi tímar framundan“