Selfoss fær fjóra Senegala

Knattspyrnulið Selfoss fær liðsstyrk á næstu dögum en fjórir ungir leikmenn frá Senegal eru að ganga í raðir félagsins.

Logi Ólafsson, þjálfari Selfoss, staðfesti þetta í samtali við sunnlenska.is í dag.

„Það eru allir pappírar klárir vegna komu Senegalanna en það er einhver handavinna eftir hjá Útlendingastofnun. Hún þarf að staðfesta pappíra þeirra og senda til danska sendiráðsins í Gambíu sem sér um mál leikmannanna,“ segir Logi og bætir við að ekki sé ljóst hvenær leikmennirnir koma á Selfoss en félagið sé að ýta á eftir málinu.

Logi segir leikmennina fjóra alla styrkja liðið en einn þeirra æfði undir stjórn Loga hjá KR í fyrravetur. „Hann er mjög góður miðjumaður og ég geri ráð fyrir því eftir að hafa rætt við mína menn úti að hinir þrír séu jafngóðir eða betri. Það verður samt að koma í ljós hvar þeir standa og hvað þeir geta en þeir eru fengnir hingað til þess að styrkja liðið sjálft. Auðvitað eykst samkeppnin í hópnum við þetta en við þurfum líka að búa til samkeppni um stöður,“ segir Logi ennfremur.

Leikmennirnir fjórir eru Babacar Sarr, tvítugur örfættur miðjumaður, Ibrahima Ndiaye, tvítugur framherji, Sena Abdalha, 18 ára framherji og Sidy Sow, 22 ára örfættur kantmaður. Þeir koma allir frá knattspyrnuakademíu í Dakar. Þjálfari þeirra, Djibrial Cisse, mun fylgja þeim til Íslands og hjálpa þeim að koma sér fyrir á Selfossi.

Selfyssingar hafa fleiri járn í eldinum og hafa meðal annars rætt við Martin Dohlsten sem lék með liðinu í Pepsi-deildinni sl. sumar. „Martin er núna að leita fyrir sér hjá félagi í Svíþjóð og við fylgjumst með því en ef hann hefur áhuga á að koma aftur þá er hann alveg klárlega leikmaður sem við höfum áhuga á,“ sagði Logi að lokum.

Fyrri greinHálsbrotnaði í bílveltu
Næsta greinÍ fangelsi fyrir þjófnað