Selfoss fær Sindra Snæ að láni

Knattspyrnudeild Selfoss hefur fengið miðjumanninn Sindra Snæ Magnússon lánaðan frá Breiðabliki á þessum lokadegi félagaskiptagluggans á Íslandi.

Sindri Snær er 21 árs gamall og uppalinn hjá ÍR en hann gekk í raðir Breiðabliks haustið 2011 og lék fimm leiki með liðinu í Pepsi-deildinni í fyrra. Áður átti hann 55 deildar og bikarleiki með ÍR.

Sindri hefur átt sæti í yngri landsliðum Íslands en hann á að baki tíu leiki samtals fyrir U17, U19 og U21 árs landsliðin.

Sindri Snær verður kominn með leikheimild með Selfyssingum á morgun og verður því væntanlega klár í slaginn þegar Selfoss heimsækir Víkinga í 1. deildinni á föstudagskvöld.

Fyrri greinÁrborg lánar íbúum matjurtagarða
Næsta greinÓlafur í Landhelgisgæsluna