Selfoss fær 3,6 milljónir frá UEFA

Knattspyrnudeild Umf. Selfoss fær 3,6 milljónir króna frá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, til eflingar knattspyrnu barna- og unglinga.

UEFA hefur ákveðið, líkt og áður, að hluti af þeim tekjum sem sambandið hafði af Meistaradeild Evrópu 2011/2012 skuli renna til félaga í öllum aðildarlöndum sambandsins til eflingar knattspyrnu barna- og unglinga.

Öll félögin sem léku í Pepsi-deild karla í suma fá 3.620.000 kr. hvert. Úthlutun er háð því að félög haldi úti starfsemi í yngri flokkum og hafi samþykkta áætlun um uppeldisstarf skv. leyfisreglugerð KSÍ.

Knattspyrnusamband Íslands leggur síðan til 40 milljónir króna sem renna til félaga í 1. deild karla, 2. deild karla, 3. deild karla og aðildarfélaga KSÍ utan deilda 2012. Úthlutun er háð því að félög haldi úti starfsemi í yngri flokkum beggja kynja.

Þannig fá Ægismenn greiddar 800 þúsund krónur frá KSÍ en félagið er með yngri flokka bæði hjá strákum og stelpum. Önnur sunnlensk knattspyrnufélög í neðri deildum þurfa að sækja um styrk til barna- og unglingastarfs og sýna fram á starfsemi sína.