Selfoss enn í brekku

Það mæddi mikið á Jóni Vigni Péturssyni og Reyni Frey Sveinssyni í Selfossvörninni í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti Þór Akureyri í Bogann í dag í 1. deild karla í knattspyrnu. Bæði lið hafa verið í brekku undanfarnar umferðir en Þórsarar náðu að rétta úr kútnum í dag og vinna 2-0 sigur.

Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik og bæði lið fengu álitleg færi áður en Þórsarar komust yfir á 33. mínútu eftir góða sókn. Staðan var 1-0 í hálfleik.

Selfyssingar voru sterkari í seinni hálfleiknum en eins og oft áður í sumar áttu þeir í erfiðleikum með að enda sóknir með marki. Þórsarar komust í 2-0, gegn gangi leiksins, með marki úr hornspyrnu á 74. mínútu og þar við sat.

Selfoss sótti af krafti á lokakaflanum, manni fleiri eftir að leikmaður Þórs hafði fengið sitt annað gula spjald á 80. mínútu. Allt kom fyrir ekki og Þór vann öruggan sigur.

Selfoss er á botni deildarinnar með sex stig en með sigrinum lyftu Þórsarar sér upp í 4. sætið með 14 stig.

Fyrri grein„Víglundur var vinur allra“
Næsta greinBako Verslunartækni gerist bakhjarl Klúbbs matreiðslumeistara