Selfoss elti allan tímann

Katla Björg Ómarsdóttir skoraði 4 mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss í handbolta tapaði 20-25 þegar Grótta kom í heimsókn í Iðu í Grill 66 deildinni í dag.

Grótta komst í 1-4 í upphafi leiks en Selfoss náði að minnka muninn aftur í eitt mark, 5-6. Síðustu fimmtán mínúturnar í fyrri hálfleik gekk sóknarleikur Selfyssinga illa og á síðustu rúmu fimm mínútunum fyrir hlé náði liðið ekki að skora mark. Staðan var 8-14 í hálfleik.

Grótta náði níu marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks, 10-19, en eftir það fór Selfyssingum að ganga betur og þær minnkuðu muninn jafnt og þétt. Að lokum skildu fimm mörk liðin að, 20-25.

Arna Kristín Einarsdóttir var markahæst Selfyssinga með 6/4 mörk, Katla Björg Ómarsdóttir skoraði 4, Agnes Sigurðardóttir, Rakel Guðjónsdóttir og Elín Krista Sigurðardóttir skoruðu allar 3 mörk og Ivana Raickovic 1. 

Lena Ósk Jónsdóttir varði 8/1 skot í marki Selfoss og var með 24% markvörslu.

Selfoss er í 9. sæti deildarinnar með 4 stig en Grótta er í 5. sæti með 14 stig.

Fyrri greinSkjálftinn auglýsir eftir verðlaunagrip 
Næsta greinHamar-Þór sigraði í framlengingu