Selfoss elti allan tímann

Mia Kristin Syverud. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti Hauka í úrvalsdeild kvenna í handbolta í kvöld á Ásvelli í Hafnarfirði. Haukar unnu öruggan sigur, 34-28.

Haukar náðu fljótlega góðum tökum á leiknum og um miðjan fyrri hálfleikinn var staðan orðin 12-5. Munurinn varð mestur tíu mörk í fyrri hálfleik en staðan var 19-10 í leikhléi.

Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn vel og munurinn hélst um og yfir tíu mörkum lengi vel. Selfoss náði að minnka muninn í fimm mörk á lokakaflanum en sigri Hauka var ekki ógnað og í lokin skildu sex mörk liðin að.

Syverud-systurnar voru markahæstar Selfyssinga í kvöld, Mia Kristin skoraði 9/7 mörk og Marte 6. Hulda Hrönn Bragadóttir skoraði 3 mörk, Eva Lind Tyrfingsdóttir og Adela Eyrún Jóhannsdóttir 2, Hulda Dís Þrastardóttir 2/1 og þær Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir, Victoria McDonald, Sylvía Bjarnadóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu allar 1 mark.

Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 4 skot í marki Selfoss og var með 13% markvörslu og Sara Xiao Reykdal varði sömuleiðis 4 skot og var með 33% markvörslu.

Fyrri greinKR marði sigur í framlengingu