Selfoss ekki í vandræðum með Hamar

Trevon Evans skoraði 26 stig í kvöld, tók 11 fráköst, sendi 5 stoðsendingar og stal 5 boltum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar unnu öruggan sigur á Hamri í 1. deild karla í körfubolta þegar liðin mættust í Hveragerði í kvöld, 81-94.

Hvergerðingar höfðu frumkvæðið í 1. leikhluta en í 2. leikhluta tóku Selfyssingar af skarið, spiluðu fantavel í vörn og sókn og voru komnir með ágætt forskot í hálfleik, 38-50.

Munurinn jókst enn frekar í 3. leikhluta, þar sem Hamarsmönnum gekk illa að stöðva Selfyssinga og þegar 4. leikhluti hófst var staðan 58-77. Hamar tók góða rispu í upphafi 4. leikhluta og náði að minnka muninn í sex stig, 72-78, en þá tóku Selfyssingar aftur við sér og kláruðu leikinn af öryggi.

Trevon Evans var drjúgur fyrir Selfyssinga, skoraði 26 stig og tók 11 fráköst en hjá Hamri var Dareial Franklin stigahæstur með 28 stig og 7 fráköst.

Selfoss er nú í 5. sæti deildarinnar með 22 stig en Hamar er í 9. sæti með 6 stig.

Tölfræði Hamars: Dareial Franklin 28/7 fráköst, Kristinn Ólafsson 18/6 fráköst, Alfonso Birgir Gomez 8/5 fráköst, Daði Berg Grétarsson 7/5 fráköst/7 stoðsendingar, Maciek Klimaszewski 7, Haukur Davíðsson 5, Daníel Sigmar Kristjánsson 4, Benoný Svanur Sigurðsson 4/4 fráköst, Baldur Freyr Valgeirsson 4 fráköst.

Tölfræði Selfoss: Trevon Evans 26/11 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Gerald Robinson 23/11 fráköst, Vito Smojver 16, Gasper Rojko 13/9 fráköst, Birkir Hrafn Eyþórsson 7, Styrmir Jónasson 6, Arnar Geir Líndal 3.

Fyrri greinEkki útlit fyrir að opni í dag
Næsta greinAha.is þjónustar fjóra veitingastaði á Selfossi