Selfoss eignaðist þrjá Evrópumeistara

Þrír keppendur frá Umf. Selfoss eru í stúlknalandsliði Íslands sem sigraði á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum í Árósum í Danmörku í hádeginu í dag.

Í liði Íslands eru þær Eva Grímsdóttir, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Margrét Lúðvígsdóttir.

Keppnin var gríðarlega jöfn og spennandi en íslenska liðið átti frábæran dag og skaut heimamönnum ref fyrir rass og Danir urðu að sætta sig við annað sætið.

Ísland fékk 54,899 stig en Danir 53,783. Svíar tóku bronsið en þessi þrjú lið börðust hart um sigurinn.

Fjórar Selfosskonur voru í liði fullorðinna í blönduðum flokki karla og kvenna. Það eru þær Rakel Nathalie Kristinsdóttir, Hugrún Hlín Gunnarsdóttir, Katrín Ösp Jónasdóttir og Helga Hjartardóttir. Liðið hafnaði í fjórða sæti í úrslitunum í morgun.

Blandað unglingalið Íslands 13-17 ára varð einnig í fjórða sæti í morgun en þar voru fimm Selfyssingar innanborðs, þau Ástrós Hilmarsdóttir, Bryndís Arna Þórarinsdóttir, Nadía Björt Hafsteinsdóttir, Ægir Atlason og Aron Bragason.

Kvennalið Íslands sló svo botninn í daginn með því að tryggja sér Evrópumeistaratitilinn en liðið var skipað keppendum frá Gerplu í Kópavogi.