Selfoss deildarmeistari í 5. flokki

Stór hópur frá Selfossi, eða áttatíu keppendur, héldu á Akureyri um síðustu helgi og tóku þátt í fjölmennasta vormóti Fimleikasambands Íslands í hópfimleikum til þessa.

Alls voru tæplega 700 keppendur mættir til leiks en keppt var í 1. deild sem er keppni í landsreglum. Í 5. flokki kvenna sem er flokkur 9-12 ára kepptu 22 lið og áttu Selfyssingar þrjú kvennalið. Hópur HL4 kom sá og sigraði á þessu móti en það voru glæsilegar æfingar á dýnu sem tryggði þeim gullið. Hópurinn er skipaður 11-12 ára gömlum stelpum. Þær fengu samtals 21,6 stig en lið Gerplu A varð í 2. sæti með 21,35 stig.

Lið Selfoss HL7 sem er skipað 10 ára gömlum stelpum hafnaði í 5. sæti og lið Selfoss HL5 sem er skipað 11 ára gömlum stúlkum hafnaði í 6. sæti. Lið HL5 hefur verið fast á hæla HL4 í vetur en þær gerðu stór mistök á dýnu sem kostaði þær verðlaun.

Í 5.flokki karla- og mixliða átti Selfoss einnig fulltrúa en lið Selfoss HL9 sem er skipað stúlkum og drengjum á aldrinum 9-10 ára stóðu sig frábærlega og uppskáru gullið í sínum flokki en alls tóku fjögur lið þátt í þeirra flokki. Gerpla varð í 2. sæti og Höttur í því þriðja. Með sigrinum lönduðu þau einnig deildarmeistaratitli í sínum flokki með 17 stig eftir mót vetrarins en lið Gerplu varð í öðru sæti með 16 stig.

Lið Selfoss HL4 varð einnig deildarmeistari eftir mót vetrarins en með tveimur sigrum og einu silfri í vetur enduðu þær með 19 stig en lið Gerplu A varð í 2. sæti með 15 stig. Þær voru að vonum kátar með titilinn enda verðskuldaður. Mjög góður árangur hjá þessum efnilegu fimleikakonum og framtíðin er björt á Selfossi.

Í fjórða flokki sem er flokkur 12-14 ára kepptu alls 17 lið og átti Selfoss eitt lið í keppninni, lið Selfoss HL2. Þær enduðu í 6. sæti með 18,950 en það var mjótt á munum á efstu liðunum en liðið sem vann var Gerpla með 20,650. Lið Selfoss stóð sig mjög vel en framtíðin er þeirra þar sem þær eru á fyrra ári í flokknum.

Í þriðja flokki sem er flokkur 15 ára og eldri átti Selfoss einnig eitt lið en þar kepptu tólf lið. Keppnin er mjög hörð í þessum flokki og voru þær að keppa við mun eldri stelpur þar sem lið Selfoss eru stelpur á aldrinum 14-15 ára. Þær keyrðu glæsilegasta mótið sitt í vetur með engum stórum mistökum og uppskáru silfur með 21,750 stig. Lið Hattar frá Egilsstöðum sem er mun eldra lið sigraði flokkinn með 22,60 stigum og lið Stjörnunnar varð í 3. sæti með 21,50 stig.

Ferðin gekk vel í alla staði, og var hópurinn öllum til fyrirmyndar.

Fyrri greinTvær ferðir í viku á Flúðir
Næsta greinGrýlupottahlaup 3 – Úrslit