Selfoss byrjar vel eftir fríið

Atli Ævar Ingólfsson er í 35 manna æfingahóp landsliðsins. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfyssingar unnu góðan sigur á Val á útivelli í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Með frábærum lokakafla náðu Selfyssingar að tryggja sér 29-34 sigur.

Leikurinn var jafn fyrstu fimmtán mínúturnar en þá náðu Valsmenn 5-1 kafla og breyttu stöðunni úr 6-6 í 11-7. Selfoss náði að klóra í bakkann undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 15-12 í leikhléi.

Valur hafði frumkvæðið framan af seinni hálfleiknum en Selfyssingar náðu að jafna 24-24 þegar þrettán mínútur voru eftir af leiknum. Lokakaflinn var svo í 100% eigu Selfyssinga sem bættu rösklega við forskotið og sigruðu að lokum með fimm marka mun, 29-34.

Elvar Örn Jónsson er mættur aftur út á gólfið eftir langt hlé vegna meiðsla. Hann lét heldur betur til sín taka og var markahæstur með 11 mörk. Atli Ævar Ingólfsson og Árni Steinn Steinþórsson skoruðu báðir 6 mörk, Haukur Þrastarson 5, Teitur Örn Einarsson 3 og þeir Hergeir Grímsson, Guðni Ingvarsson og Einar Sverrisson skoruðu allir 1 mark.

Með sigrinum fóru Selfyssingar upp fyrir Valsmenn, í þriðja sætið, og hafa nú 22 stig. Valur er með 21 stig í 4. sætinu.

Fyrri greinHeimakonur sterkari í seinni hálfleik
Næsta greinHSK vann yfirburðasigur á MÍ 11-14 ára