Selfoss byrjar á sigri

Karlalið Selfoss í handbolta opnaði leiktíðina í 1. deildinni í vetur með frábærum útisigri á toppkandidötunum í Gróttu á útivelli í kvöld. Lokatölur voru 24-25.

Grótta féll úr N1-deildinni á síðasta keppnistímabili og hefur því verið spáð að liðið fari beint upp aftur. Selfyssingar vermdu hins vegar 4.-5. sætið í spánni.

Leikurinn byrjaði rólega en Selfoss komst í 2-4 eftir tíu mínútna leik. Grótta jafnaði 5-5 og var leikurinn í járnum eftir það. Staðan í hálfleik var jöfn, 11-11.

Selfyssingar múruðu saman vörnina í seinni hálfleik og fengu í kjölfarið nokkur hraðaupphlaup sem skiluðu 15-18 forystu. Munurinn var þrjú mörk allt framundir lok leiksins en Grótta át upp forskotið smátt og smátt á síðustu tíu mínútunum og jafnaði á 57. mínútu. Grótta átti síðustu sókn leiksins en Helgi Héðinsson varði þegar þrjár sekúndur voru eftir og tryggði sínum mönnum sigur, 24-25.

Matthías Örn Halldórsson fór á kostum og skoraði níu mörk, Einar Pétur Pétursson skoraði sex mörk, Hörður Gunnar Bjarnason fjögur, Jóhann Gunnarson og Einar Sverrisson skoruðu báðir tvö mörk og þeir Atli Kristinsson og Örn Þrastarson skoruðu sitt markið hvor. Helgi Hlynsson varði 18 skot og Ómar Helgason var öflugur í vörninni.

Fyrri greinGóðu kornsumri að ljúka
Næsta greinGjafaleikur í tilefni af nýrri heimasíðu