Selfoss – Breiðablik 1-3

Einar Ottó Antonsson skoraði eina mark Selfoss í 1-3 tapi gegn Breiðablik í Pepsi-deildinni í kvöld. Batamerki voru á leik Selfoss en það dugði ekki til.

Fyrir leik: Guðmundur Benediktsson gerir fimm breytingar á byrjunarliði sínu sem mætir Breiðablik á Selfossvelli í kvöld. Meiðsli hafa verið að hrjá varnarlínuna hjá Selfyssingum, Andri Freyr og Stefán Ragnar eru á bekknum vegna meiðsla. Þá er Ingi Rafn Ingibergsson einnig á bekknum og Arilíus Marteinsson tekur út leikbann. Ekki hafa fundist skýringar á brotthvarfi Sigurðar Eyberg úr leikmannahópnum. Kjartan Sigurðsson, Jón Steindór Sveinsson, Davíð Birgisson, Guðmundur Þórarinsson og Jón Guðbrandsson koma inn í byrjunarliðið.

Fyrri hálfleikur: Jöfnum fyrri hálfleik lokið þar sem Blikar hafa verið ívið meira með boltann án þess þó að skapa sér teljandi færi. Þeir hafa reyndar verið rangstæðir oftar en góðu hófi gegnir og það skilar yfirleitt litlu. Blikar komust yfir þegar 44 mínútur og 59 sekúndur voru liðnar af leiknum. Kristinn Steindórsson skoraði þá af stuttu færi eftir hornspyrnu.

Selfyssingar hafa átt tvö þrjú góð skot að marki en engin dauðafæri. Sóknarleikur Selfoss byggðist á tímabili á því að dæla háum boltum inn að vörn Blika þar sem fyrirliðinn hávaxni, Kári Ársælsson, lendir iðulega í skallaeinvígi við minnsta mann Selfossliðsins, Davíð Birgisson. Spurning hvort Guðmundur Benediktsson skipti ekki Inga Rafni Ingibergssyni inná. Davíð gæti tekið hann á háhest og þannig unnið skallaboltana gegn Kára. Annars hafa Selfyssingar verið öflugir með þá frændur úr Dýragarðinum, Jón og Einar Ottó í baráttunni á miðjunni.

Seinni hálfleikur: Blikar gerðu sig líklega á upphafsmínútum síðari hálfleiks en síðan tók við góður kafli hjá Selfyssingunum. Mark Einars Ottó Antonssonar á 58. mínútu blés nýju lífi í Selfossliðið og virtist gefa liðinu meira sjálfstraust. Mark Einars var sérstaklega glæsilegt, hann pressaði Kára Ársælsson á miðjum vallarhelmingi Blika, slapp einn innfyrir og lék yfirvegað á markvörð Breiðabliks til að renna knettinum í autt markið.

Staðan var þó aðeins jöfn í átta mínútur þegar Guðmundur Pétursson kom Blikum aftur yfir. Hann fékk að snúa sér með boltann fyrir utan vítateig Selfoss og sendi hann hárnákvæmt í netið. Mínútu síðar átti Sævar Þór Gíslason að jafna þegar hann skaut framhjá opnu marki af tveggja metra færi. Jón Daði Böðvarsson átti hörkuskot að marki sem Ingvar Kale varði, boltinn barst til Sævars sem sendi hann rétt framhjá stönginni – vitlausu megin.

Leikurinn var síðan opinn allt þar til Blikar skoruðu sitt þriðja mark úr óendanlega langri sókn. Þeir reyndu ýmsar krúsídúllur í kringum vítateig Selfoss áður en Kristinn Steindórsson bætti við öðru marki sínu. Varamaðurinn Ingi Rafn Ingibergsson fékk síðan beint rautt spjald eftir að hafa sett olnbogann í leikmann Blika. Ingi Rafn hafði verið inná í tvær mínútur.

Byrjunarlið Selfoss: Jóhann Ólafur Sigurðsson (M), Agnar Bragi Magnússon, Kjartan Sigurðsson, Ingólfur Þórarinsson (Ingþór Jóhann Guðmundsson +75), Jón Steindór Sveinsson (Ingi Rafn Ingibergsson +90), Sævar Þór Gíslason (F) (Viðar Örn Kjartansson +75), Davíð Birgisson, Guðmundur Þórarinsson, Jón Daði Böðvarsson, Jón Guðbrandsson, Einar Ottó Antonsson.

Ónotaðir varamenn: Elías Örn Einarsson, Andri Freyr Björnsson, Gunnar Rafn Borgþórsson, Stefán Ragnar Guðlaugsson.

Byrjunarlið Breiðabliks: Ingvar Kale (M), Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Kári Ársælsson (F), Guðmundur Pétursson, Kristinn Jónsson, Finnur Orri Margeirsson, Jökull Elísabetarsson, Olgeir Sigurgeirsson, Kristinn Steindórsson, Alfreð Finnbogason, Guðmundur Kristjánsson.
Varamenn: Sigmar Ingi Sigurðsson, Árni Kristinn Gunnarsson, Ranndver Sigurjónsson, Elvar Páll, Sigurðsson, Sverrir Ingi Ingason, Bjarki Aðalsteinsson, Andri Rafn Yeoman.