Selfoss bauð í markaveislu

Byrjunarlið Selfoss í leiknum í kvöld. Ljósmynd: UMFS/Einar Karl Þórhallsson

Selfyssingar léku á als oddi þegar þeir tóku á móti Víði Garði í toppslag 2. deildar karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.

Hrvoje Tokic kom Selfyssingum yfir með marki úr vítaspyrnu á 16. mínútu, sem hann fiskaði sjálfur. Leikurinn var opinn í fyrri hálfleik og Víðismenn áttu ágætis kafla en Selfoss var meira með boltann og átti beittari sóknir. Víðir jafnaði metin á 29. mínútu eftir slæm mistök í vörn Selfoss og var markið nokkuð gegn gangi leiksins. Staðan var 1-1 í hálfleik.

Selfoss gerði svo út um leikinn með frábærum tíu mínútna kafla í upphafi seinni hálfleiks. Hrvoje Tokic nýtti gott færi á 48. mínútu eftir sendingu frá Inga Rafni Ingibergssyni og aðeins mínútu síðar var Ingi sjálfur á ferðinni þegar hann tók við boltanum í teignum frá Þór Llorens Þórðarsyni og skoraði af öryggi. Veislan var ekki búin því Valdimar Jóhannsson kom Selfyssingum í 4-1 á 59. mínútu, Ingi Rafn átti skot að marki sem markvörður gestanna varði en frákastið fór á Valdimar sem skoraði af öryggi.

Leikurinn fjaraði talsvert út eftir þessa frábæru byrjun Selfyssinga en þeir bættu þó við einu marki á 74. mínútu þar sem Tokic hefði getað innsiglað þrennuna en var óeigingjarn og renndi boltanum á vin sinn Kenan Turudija sem var í enn betra færi í teignum.

Selfoss er í toppsæti 2. deildarinnar með 9 stig en KFG, Vestri og Völsungur eiga leik til góða og geta jafnað Selfoss að stigum.

Fyrri greinRagnheiður ráðin forstöðumaður
Næsta greinGuðmundur með fernu fyrir KFR