Selfoss aftur í deild þeirra bestu

Selfossliðið fagnar með stuðningsmönnum sínum í Eyjum í dag. Ljósmynd/Árni Þór Grétarsson

Selfoss varð í kvöld deildarmeistari í Grill 66 deild kvenna í handbolta og tryggði sér sæti í Olísdeildinni á næsta keppnistímabili.

Selfyssingar ferðuðust til Vestmannaeyja þar sem þær mættu ungmennaliði ÍBV og unnu þær vínrauðu öruggan sigur, 25-37.

Jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleik en um hann miðjan þéttu Selfyssingar raðirnar í vörninni og fengu nokkur auðveld mörk í kjölfarið.

Staðan í hálfleik var 14-20 og í seinni hálfleik var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda. Selfoss vann að lokum tólf marka sigur og fagnaði liðið vel ásamt stuðningsmönnum sínum sem fjölmenntu til Vestmannaeyja. Eftir þriggja ára dvöl í 1. deildinni er Selfoss aftur komið í deild þeirra bestu.

Tinnurnar traustu í Selfossliðinu báru uppi sóknarleik liðsins í dag. Tinna Soffía Traustadóttir skoraði 11 mörk og Tinna Sigurrós Traustadóttir 10. Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir skoraði 5 mörk, Kristín Una Hólmarsdóttir og Roberta Strope 3, Rakel Guðjónsdóttir 2 og þær Lena Ósk Jónsdóttir, Inga Sól Björnsdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu allar 1 mark.

Fyrri greinDagný skoraði í 100. landsleiknum
Næsta greinFyrstu stig Hamars