Selfoss áfram í bikarnum

Kvennalið Selfoss er komið í 16-liða úrslit Valitorbikars kvenna í knattspyrnu eftir 0-2 sigur á Haukum á Ásvöllum í kvöld.

Selfyssingar voru sterkari á upphafsmínútunum og komust yfir eftir 15. mínútna leik. Þar var að verki Guðmunda Brynja Óladóttir. Eftir markið jafnaðist leikurinn nokkuð og einkenndist af stöðubaráttu á miðjunni.

Staðan var 0-1 í hálfleik en Bergþóra Gná Hannesdóttir kom Selfoss í 0-2 á 60. mínútu. Áfram var jafnræði með liðunum sem bæði áttu sín færi. Haukarnir ógnuðu talsvert en Dagný Pálsdóttir átti góðan dag í marki Selfoss og Guðrún Arnardóttir var sterk í vörninni og braut margar sóknir Haukanna á bak aftur.

Dregið verður í 16-liða úrslitin í hádeginu á föstudaginn en þá bætast liðin tíu úr Pepsi-deild kvenna í pottinn. Liðin sem komin eru áfram auk Selfoss eru ÍA, Fjölnir, FH, Völsungur og Sindri.