Selfoss áfram í bikarnum eftir vítaspyrnukeppni

Selfyssingar eru komnir í undanúrslit Borgunarbikars kvenna í knattspyrnu eftir 2-4 sigur á ÍBV í Eyjum í kvöld. Úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni eftir mikla dramatík í framlengingunni.

Annað árið í röð mættust Selfoss og ÍBV í 8-liða úrslitum og alveg eins og á JÁVERK-vellinum í fyrra fór leikurinn í vítaspyrnukeppni eftir mikla dramatík.

Fyrri hálfleikur var jafn en Selfyssingar voru sterkari í síðari hálfleik og aðeins stórleikur Bryndísar Láru Hrafnkelsdóttur í marki ÍBV kom í veg fyrir að Selfoss tryggði sér sigurinn í venjulegum leiktíma. Bryndís Lára varði sérstaklega vel í seinni hálfleik en þá voru Selfyssingar duglegir að koma sér í færin.

0-0 eftir 90. mínútur.

Í upphafi framlengingarinnar átti Guðmunda Óladóttir laust skot í þverslána en þetta var annað sláarskot Selfyssinga í leiknum. Á 99. mínútu slapp svo Shaneka Gordon innfyrir Selfossvörnina og Chante Sandiford, markvörður Selfoss, braut á henni. Vítaspyrna dæmd og af punktinum skoraði Cloe Lacasse.

Selfyssingar sóttu mun meira í seinni hluta framlengingarinnar og það var svo tveimur mínútum fyrir leikslok að Guðrún Bára Magnúsdóttir braut á Magdalenu Reimus innan teigs og Selfyssingar fengu vítaspyrnu. Guðmunda fór á punktinn og jafnaði metin og því þurfti að knýja fram úrslit í vítaspyrnukeppni.

Vítaskyttum liðanna gekk afleitlega að skora og þrjár spyrnur fóru meðal annars yfir markið. Það var hins vegar María Rós Arngrímsdóttir sem tryggði Selfyssingum sigurinn í fimmtu spyrnu liðsins.

Gangur vítakeppninnar:
1-1 Bryndís ver frá Guðmundu
1-1 Sandiford ver frá Sabrínu Adólfsdóttur
1-2 Dagný Brynjars skorar af öryggi
2-2 Lacasse skorar fyrir ÍBV
2-3 DK Henry skorar örugglega fyrir Selfoss
2-3 Sigríður Lára Garðarsdóttir skýtur hátt yfir
2-3 Magdalena skýtur líka yfir
2-3 Díana Dögg Magnúsdóttir skýtur þriðja skotinu í röð yfir markið
2-4 María Rós Arngrímsdóttir tryggir Selfyssingum sigurinn!

Fyrri greinNevermind í Skálholti
Næsta greinSextán tíma sölumennska fyrir frímiða