Selfoss áfram í bikarnum

Lærisveinar Dean Martin eru komnir í 32-liða úrslitin en dregið verður á morgun, laugardag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru komnir í 32-liða úrslit bikarkeppni karla í knattspyrnu eftir 0-1 sigur á Hvíta riddaranum á útivelli í kvöld.

Selfoss leikur í 2. deild en Hvíti riddarinn í 4. deildinni. Liðin mættust á Varmárvelli í Mosfellsbæ. Það tók Selfyssinga 85 mínútur að brjóta Riddarann á bak aftur en varamaðurinn Aron Darri Auðunsson skoraði þá glæsilegt mark og tryggði Selfyssingum 0-1 sigur.

Hamar, sem leikur í 4. deild, heimsótti Kórdrengina, sem leika í 2. deild, á Framvöllinn í Safamýri. Kórdrengirnir reyndust of stór biti fyrir Hvergerðinga. Staðan var orðin 3-0 í leikhléi og lokatölur urðu 6-0.

Á morgun eru tveir stórleikir í Mjólkurbikar karla. Stokkseyri tekur á móti Reyni Sandgerði kl. 14:00 og á sama tíma heimsækir Árborg Njarðvík.