Selfoss áfram eftir bráðabana

Selfyssingar eru komnir í 32-liða úrslit Valitorsbikars karla í knattspyrnu eftir 7-6 sigur á ÍA í kvöld. Markvörðurinn Jóhann Ólafur Sigurðsson varði fjórar vítaspyrnur en bráðabana þurfti til að knýja fram úrslit.

Leikurinn byrjaði illa hjá heimamönnum því strax á 2. mínútu komust Skagamenn yfir. Endre Brenne jafnaði fyrir Selfoss á 16. mínútu en það var skammvinn sæla því Skagamenn fengu mjög vafasama vítaspyrnu fjórum mínútum síðar og komust aftur yfir.

Stefán Þórðarson fékk rautt spjald á 30. mínútu og Skagamenn léku því einum manni færri það sem eftir lifði leiks, í 90 mínútur. Gestirnir spiluðu agaðan varnarleik og Selfyssingar áttu erfitt með að finna glufur á vörninni en Arilíus Marteinsson jafnaði með auðveldum skalla á 59. mínútu og var það eina mark síðari hálfleiks.

Þrátt fyrir markaleysið var síðari hálfleikur mjög líflegur inni á miðsvæðinu og stuttur kveikiþráðurinn í leikmönnum beggja liða. Leikurinn var hin besta skemmtun og áhorfendurnir gjörnýttu aðgangseyrinn eins og átti eftir að koma í ljós.

Þá var gripið til framlengingar sem var algjörlega án nokkurra tíðinda og vítaspyrnukeppni var óumflýjanleg. Þar reyndist Jóhann Ólafur Sigurðsson, markvörður Selfoss, hetja liðsins því hann varði þrjár fyrstu spyrnur Skagamanna. Selfyssingar voru þó ekki á því að klára með stæl því Viðar Örn Kjartansson, Joe Tillen og Jón Daði Böðvarsson skutu allir yfir markið. Gömlu mennirnir, Sævar Gíslason og Auðun Helgason skoruðu úr sínum spyrnum og staðan því 4-4 þegar kom að bráðabana.

Þar skoruðu Stefán Ragnar Guðlaugsson og Endre Brenne fyrir Selfoss áður en Jóhann Ólafur tók sig til og varði sína fjórðu vítaspyrnu þegar Skagamenn fóru í áttunda skipti á punktinn. Ibrahima Ndiaye skoraði úr áttundu spyrnu Selfyssinga sem fögnuðu vel í leikslok.

Dregið verður í 32-liða úrslit í hádeginu á morgun.