Selfoss áfram á toppnum

Brenna Lovera er búin að skora fimm mörk í fyrstu fjórum leikjunum. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Kvennalið Selfoss vann sanngjarnan útisigur á Þór/KA í Bestu deildinni í knattspyrnu á Þórsvellinum á Akureyri í dag.

Leikurinn var ákaflega tíðindalítill stærstan hlutann en Selfyssingar voru sterkari og stýrðu umferðinni út um allan völl. Undir lok fyrri hálfleiks æstust leikar og bæði lið fengu færi, Selfoss meðal annars tvö dauðafæri sem Harpa Jóhannsdóttir í marki Þórs/KA varði glæsilega.

Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik. Selfoss hafði góð tök á leiknum og heimakonur ógnuðu ekkert að ráði. Markið virtist þó ætla að láta á sér standa en á 75. mínútu tók Brenna Lovera á rás inn í vítateig Þórs/KA þar sem hún var felld og vítaspyrna réttilega dæmd.

Brenna fór sjálf á punktinn og skoraði af öryggi. Sigur Selfoss var ekki í hættu á lokakaflanum, Þór/KA reyndi að færa sig framar, en Selfossvörnin réð vel við sóknarleik þeirra og leikurinn fjaraði nokkuð hratt út.

Selfosskonur eru einar í toppsætinu með 10 stig eftir fjórar umferðir en þar á eftir koma Breiðablik og Valur með 9 stig.

Fyrri greinBeata ráðin fjölmenningarfulltrúi
Næsta greinKosningaskjálftinn fannst vel á Suðurlandi