Selfoss afgreiddi Fram á fimm mínútum

Þrjú mörk á fimm mínútna kafla í fyrri hálfleik gegn Fram tryggðu Selfyssingum sinn fyrsta sigur í Pepsi-deild karla í knattspyrnu síðan 29. maí. Lokatölur voru 4-2.

Logi Ólafsson, þjálfari Selfoss, gerði tvær breytingar á byrjunarliði sínu frá tapleiknum gegn FH, Babacar Sarr kom aftur inn á miðjuna eftir leikbann og Jon Andre Röyrane kom inn fyrir Markus Hermo og Robert Sandnes færðist í vinstri bakvarðarstöðuna.

Selfyssingar byrjuðu betur í leiknum en bæði lið áttu álitleg færi á blautum vellinum þar sem markmenn liðanna áttu í vandræðum með að handsama knöttinn. Á 23. mínútu skoraði Bernard Brons gott skallamark eftir hornspyrnu en af einhverjum óútskýrðum ástæðum dæmdi dómari leiksins markið af þar sem Selfyssingar höfðu átt að hafa brotið af sér í teignum.

Selfoss sótti enn frekar í sig veðrið þegar leið á seinni hálfleikinn og á 36. mínútu brotnaði ísinn. Jón Daði Böðvarsson fékk þá boltann fyrir utan vítateiginn, tók léttan snúning og smurði boltanum í netið. Á 40. mínútu skoraði Viðar Örn Kjartansson mark númer tvö með góðu skoti úr teignum eftir frábæran undirbúning Jóns Daða. Mínútu síðar náði Jon Andre boltanum eftir að markvörður Fram kiksaði illa í teignum og Norðmaðurinn skoraði auðveldlega í tómt markið.

Í upphafi seinni hálfleiks biðu Selfyssingar aftarlega á vellinum, gáfu Fram engin færi og sóttu svo hratt upp völlinn. Boltinn fór tvisvar í þverslána á marki Fram áður en Jón Daði kom Selfoss í 4-0 á 71. mínútu. Skömmu áður var Viðar Örn felldur inn í teig af markverði Fram en slakur dómari leiksins dæmdi ekkert.

Selfyssingar fengu nokkur góð færi til viðbótar en það voru Framarar sem kláruðu leikinn með tveimur mörkum sem bæði skrifast á skelfilega varnartilburði Selfoss. Almar Ormarsson minnkaði muninn í 4-1 á 77. mínútu en hann hljóp upp allan völlinn og skoraði eftir að Selfyssingar höfðu tekið hornspyrnu. Á 90. mínútu steinsvaf Stefán Ragnar á verðinum og lét Framara hirða af sér boltann við endalínu vallarins. Boltinn barst fyrir þar sem Almar afgreiddi hann aftur í netið.

Eftir leikinn minnkuðu Selfyssingar forskot Framara niður í tvö stig. Fram hefur 13 stig í 10. sæti, Selfoss 11 og Grindavík 10 en Selfoss og Grindavík eigast við í næstu umferð á Grindavíkurvelli.